4.27.2006

Bókasafnsvörðurinn snýr aftur

Eitthvað hefur verið ýjað að því að ég sé að draga lappirnir á þessu bloggi. Alls ekki satt. Ég hef bara verið að bíða eftir einhverju til að skrifa um. Einhverri bók þ.e.a.s. Ég hef bara verið svo fjandi löt við að lesa undanfarið.

En það er auðvitað enginn sem segir að ég þurfi að skrifa um bækur. Síðast þegar ég gáði gat ég gert það sem mér sýndist. Það er ekki eins og við þurfum að uppfylla einhverja staðla eða troðast í gegnum nálarauga gæðarottunnar.

Þannig að þessi pistill er um bókasafnsfræðinga.

Nánar tiltekið kvenkyns bókasafnsfræðinga sem virðast vera þjóðflokkur út af fyrir sig og allt önnur ella en sú fyrirmynd sem boðið er upp á í Háskólanum.

Eins og allir þekkja sem hafa stundað bókasöfn af einhverju mætti er um að ræða gallharðar konur, með beinstífa lög- og réttlætiskennd sem standa uppi í hárinu og á hverjum sem dirfist að bjóða safninu birgin og gætu látið Sfinxinn fara undan í flæmingi og hrökklast frá með skottið milli lappa.

Nema að auðvitað eru þetta allt ofur venjulega manneskjur í krefjandi starfi sem gera sitt best. En það nennir enginn að spá í þeim.

Ég horfi á ansi mistæka mynd um daginn sem velti sér soldið upp úr þessum ímyndaheimi.

Party Girl fjallar um stefnulausa og partýglaða 24 ára stúlku sem lendir í veseni og fær starf hjá guðmóður sinni á bókasafni. Guðmóðirin tekur það skýrt fram að á meðan hún sjálf er bókasafnsfræðingur með þar að lútandi próf er stelpugálan aðeins bókavörður og best geymd í því vanþakkláta hlutverki að raða í hillur. Í gegnum myndina uppgötvar svo stúlkan ástríðu sína fyrir Dewey kerfinu og virðist sjúga í sig merkingu þess alls með einlægum áhuga og einni ölvaðri nóttu á safninu. Hin litríka og áhrifagjarna persóna er undir lok myndarinnar kominn í svarta dragt, með hárið í hnút, skammaryrði handa öllum þeim sem dirfast að rugla kerfið og sannfæringu um hina einu réttu (og rétthyrndu) stefnu í lífinu. Myndin tekur jú fram að hún ætli í skóla að læra fagið en áhorfandanum finnst það hálfgerður óþarfi því þetta er greinilega henni í blóð borið.

Ég leyfi mér að efast um að þessi manneskja hafi nokkurn tímann fæðst og funkerað í þessu heimi - og þá aðeins fyrir tilstilli aragrúa af lyfjum.

Það fyndna er að guðmóðirin er hin ósköð venjulega miðaldra kona með sína menntun og kunnáttu og báðar fætur á jörðinni. Þessi sem enginn upphefur eða ámælir því þær falla gjarna inn í bakgrunninn. Vinna sitt starf og fara svo heim að sjóða fisk en eru ekki t.d. að eiga heita ástarfundi innan um bókastaflana eða endurskipuleggja plötusafn vina sinna eftir Dewey kerfinu. Þessi raunverulega sem getur aldrei orðið fókust indí-mynda því þar þurfa allir að vera svo spes. Og í sannleika sagt talsvert meira ógnvekjandi en sú ímyndaða því það er hún og enginn önnur sem getur bannað þér að taka fleiri bækur.

3 ummæli:

Auður sagði...

Nú bara verð ég að sjá þessa mynd. Skemmtilegast væri að raða fyrst öllum uppsöfnuðu áminningunum frá bókasöfnum víðs vegar að úr heiminum í kringum mig fyrst. Bara svona til að skapa stemningu.

Ásta sagði...

Ég á hana á dévaffdé þannig að það ætti að reynast létt.

En þú verður auðvitað að raða áminningunum eftir einhverju kerfi - annað væri það nú. Mæli með sektarupphæð eða dögum fram yfir lánstíma. Nú eða sannleiksgildi krafna.

Auður sagði...

Hvað varðar viðfangsefni okkar á þessari vefsíðu mæli ég með að við gerum ummæli Goethes, við stofnun menningartímaritsins Propyläen, að okkar: "We hope to occupy ourselves soon with the theory and criticism of poetry, and we shall not exclude any illustrations from life in general, from travel, from the occurences of the day, if they be the significant promptings of the moment."