4.27.2006

Bókasafnsvörðurinn snýr aftur

Eitthvað hefur verið ýjað að því að ég sé að draga lappirnir á þessu bloggi. Alls ekki satt. Ég hef bara verið að bíða eftir einhverju til að skrifa um. Einhverri bók þ.e.a.s. Ég hef bara verið svo fjandi löt við að lesa undanfarið.

En það er auðvitað enginn sem segir að ég þurfi að skrifa um bækur. Síðast þegar ég gáði gat ég gert það sem mér sýndist. Það er ekki eins og við þurfum að uppfylla einhverja staðla eða troðast í gegnum nálarauga gæðarottunnar.

Þannig að þessi pistill er um bókasafnsfræðinga.

Nánar tiltekið kvenkyns bókasafnsfræðinga sem virðast vera þjóðflokkur út af fyrir sig og allt önnur ella en sú fyrirmynd sem boðið er upp á í Háskólanum.

Eins og allir þekkja sem hafa stundað bókasöfn af einhverju mætti er um að ræða gallharðar konur, með beinstífa lög- og réttlætiskennd sem standa uppi í hárinu og á hverjum sem dirfist að bjóða safninu birgin og gætu látið Sfinxinn fara undan í flæmingi og hrökklast frá með skottið milli lappa.

Nema að auðvitað eru þetta allt ofur venjulega manneskjur í krefjandi starfi sem gera sitt best. En það nennir enginn að spá í þeim.

Ég horfi á ansi mistæka mynd um daginn sem velti sér soldið upp úr þessum ímyndaheimi.

Party Girl fjallar um stefnulausa og partýglaða 24 ára stúlku sem lendir í veseni og fær starf hjá guðmóður sinni á bókasafni. Guðmóðirin tekur það skýrt fram að á meðan hún sjálf er bókasafnsfræðingur með þar að lútandi próf er stelpugálan aðeins bókavörður og best geymd í því vanþakkláta hlutverki að raða í hillur. Í gegnum myndina uppgötvar svo stúlkan ástríðu sína fyrir Dewey kerfinu og virðist sjúga í sig merkingu þess alls með einlægum áhuga og einni ölvaðri nóttu á safninu. Hin litríka og áhrifagjarna persóna er undir lok myndarinnar kominn í svarta dragt, með hárið í hnút, skammaryrði handa öllum þeim sem dirfast að rugla kerfið og sannfæringu um hina einu réttu (og rétthyrndu) stefnu í lífinu. Myndin tekur jú fram að hún ætli í skóla að læra fagið en áhorfandanum finnst það hálfgerður óþarfi því þetta er greinilega henni í blóð borið.

Ég leyfi mér að efast um að þessi manneskja hafi nokkurn tímann fæðst og funkerað í þessu heimi - og þá aðeins fyrir tilstilli aragrúa af lyfjum.

Það fyndna er að guðmóðirin er hin ósköð venjulega miðaldra kona með sína menntun og kunnáttu og báðar fætur á jörðinni. Þessi sem enginn upphefur eða ámælir því þær falla gjarna inn í bakgrunninn. Vinna sitt starf og fara svo heim að sjóða fisk en eru ekki t.d. að eiga heita ástarfundi innan um bókastaflana eða endurskipuleggja plötusafn vina sinna eftir Dewey kerfinu. Þessi raunverulega sem getur aldrei orðið fókust indí-mynda því þar þurfa allir að vera svo spes. Og í sannleika sagt talsvert meira ógnvekjandi en sú ímyndaða því það er hún og enginn önnur sem getur bannað þér að taka fleiri bækur.

Jákvæð gagnrýni (höf. sjálfumglaður geðsjúklingur)

I.

Sýningin öll myndar óaðfinnanlega heild
sagði gagnrýnandi númer eitt
(á sýningunni hafði honum verið heitt
í hamsi en hans deild
á blaðinu leyfði það eitt
að meta óhlutdrægt og gegnumsneitt).

II.

Eftir að opnunarhófinu lauk
og vínglasið var tæmt
skáskaut annar sér út í regnið
óræður og mikilúðlegur á svip.

Heimkominn setti hann sig í stellingar
og hóf skriftirnar
af alvöru þess sem treystir því
að áhrif skrifa vel þjálfaðs huga
verði bæði gagnleg og ánægjuleg
í vinalegum félagsskap líkra sála
sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta
við framþróun menningarinnar
(þótt hann sé vitaskuld tilbúinn
að takast karlmannlega á við
gagnstæð sjónarmið).

"Við óhlutdræga athugun kom í ljós
að listamanninum hefur réttilega tekist
að gera klassískum grískum áhrifum skil.
Verkin gera náttúrulegum uppruna sínum skil
á þroskaðan hátt
jafnframt því að kafa í djúp náttúrunnar
og djúp sálarinnar.

Hvað tækni varðar
er innra samræmi verkanna og sýningarinnar allrar
óaðfinnanlegt.
Þemun eru innihaldsrík, víðtæk og koma okkur öllum við.
Verkin eru jafnframt auðskiljanleg og falleg fyrir augað
enda hefur listamaðurinn greinilega gott vald
á pensiltækni og litablöndun.

Eitt versta merki um hnignun listarinnar
er þegar mismunandi formum hennar er hrúgað saman.
Skylda, gildi og virðing listamannsins felst í því
að kunna að greina sig frá öðrum listgreinum
og einangra sitt sérsvið sem mest hann má.
Það hefur tekist.
Vonandi verður þessari litlu athugun
tekið fegins hendi af listamanninum
sem getur þá ótrauður haldið áfram
á sömu braut."

Þar sem setningarnar renna úr prentsmiðjunni
mynda þær pappírsminnisvarða
sem bætir í Akrópólísar-undirstöður
stanslausrar framþróunar.

III

Hvílíkur þroski, hvílíkir yfirburðir
hrópaði sá þriðji.
Hér hefur nútíma málaralist náð hátindi sínum
og nú liggur leiðin aðeins niður á við aftur.
Listamanninum hefur tekist
að endurskapa málverkið
án þess að gleyma menningararfinum.

Það eina sem eyðilagði upplifunina
var erillinn á sýningaropnuninni
það er erfitt að einbeita sér
þegar maður er stanslaust truflaður
af smekklausum kerlingum
vappandi til og frá
blaðrandi merkingarlaust um "list".
Hafa ritstýrur kvennablaðanna
ekki einhverju meira aðkallandi að sinna
heima hjá sér?

IV

Á ritstjórn kvennablaðsins
hamraði menningarblaðamaðurinn önuglega
á bleika fartölvu
og beið þess að höfuðverkjataflan
færi að virka.

"þessi sýning, hún var smart, hún var svöl
og freyðivínið var af bestu sort."

V

Öll neikvæð gagnrýni
Kom aðeins frá einu ragntrýni
Sem var misheppnaður listamaður
Ógurlega lítið vistaglaður
Fullur af biturð og hlutdrægur
Allsendis ljótur þó skutfrægur
Og einn dag hann dó
Listaheimurinn hló

4.23.2006

Notagildi

Þar sem ég er nú að lesa Northrop Frye finn ég allt í einu fyrir löngun til að skilgreina svið þessa nýja klúbbs okkar; marka honum stefnu og koma á skipulögðum vinnubrögðum og þannig gefa honum kost á að vera öflugt kennivald innan vísindanna.
Ég legg því fyrir rottunefnd þá tillögu að vefsíðan Reifararottur beri undirtitilinn "Bókavísindi hins nýja íslenska lærdómslistafélags" og auglýsi hér með eftir stefnuskrá, handbók um aðferðafræði bókavísinda lærdómslistafélagsins og greinargerð um það gagn (eða ógagn) sem rannsóknir okkar munu gera samfélaginu. Höfum í huga orð Fryes í Anatomy of Criticism: "Whatever is of no practical use to anybody is expendable."

Á myndinni getið þið séð mig við nýjustu rannsóknir á skammtafræði hliðstæðra heima í femínískum ritum. Því miður virðast rannsóknir mína á tímaferðalögum öreinda hafa haft sín áhrif og dregið allverulega úr yngingaráhrifum þess að fljúga gegnum mismunandi tímabelti. En það er lítil fórn á altari vísindanna.

PS: Ef þið hafið hugmynd um hvernig þýða má tímaritaheitið "Rit þess íslenska lærdómslistafélags" yfir á enska tungu eru tillögur þar að lútandi þegnar með þökkum.

4.11.2006

Af með höfuðleðrið!

Ég minntist á það hér fyrir neðan að ég hefði lesið Salamöndrustríðið nokkrum sinnum þegar ég var barn. Bókin var sem sagt til heima hjá mér og mér fannst hún gífurlega merkileg þótt ég sé nokkuð viss um það núna að margt í henni hafi farið fyrir ofan garð og neðan.
Önnur bók sem var til á heimilinu, í minni eigin bókahillu meira að segja, var sagan Síðasti móhíkaninn. Sú bók hefur líklega komið frá pabba og verið í hans barnæsku ekta "strákabók". Ég man eftir að hafa fengið martraðir um fláningu höfuðskinna eftir lesturinn og fóta-fetish sögumannsins olli mér miklum heilabrotum (heilu blaðsíðurnar fara í að lýsa því hversu nettir og smáir fætur ensku aðalskvennanna eru - kvennanna sem sífellt þarf að bjarga). Þessi bók hafði gríðarleg áhrif á ímynd indíána í mínum huga; engin Disney rómantík þar á ferð en hasar og hetjuskapur í algleymingi.
Ég þurfti að lesa þessa bók fyrir kúrs í post-colonial bókmenntum um daginn og fannst það nokkuð skemmtileg upprifjun. Við ræddum um það hvernig bókin hefur dottið inn og út úr kanónu "alvöru bókmennta" og sveiflast frá því að vera talin fullorðinsbók, yfir í að vera barnabók og svo yfir til fullorðinna aftur.
Í kjölfarið fór ég að hugsa um það að þær bækur sem ég las sem barn höfðu oft mun meiri áhrif á mig en þær sem ég las seinna á ævinni. Oftar en ekki voru þetta "fullorðinsbækur" sem ég gat lesið aftur og aftur en stundum voru það bækur eins og Beverly verður flugfreyja (eða hvað þær hétu nú) eða Nancy og grænu skórnir sem ég leitaði í aftur og aftur.
Ég hugsa að barna-bókmenntakanónan sé jafnvel áhrifaríkari en kanóna "alvöru bókmennta" auk þess sem hún endurspeglar gildin sem samfélagið vill halda að börnum. Ætli fólki í dag fyndist Síðasti Móhíkaninn voða uppbyggileg bók fyrir barn?

4.09.2006

Fötin skapa dræsuna

Um daginn hlustaði ég á fyrirlestur um fatnað og nekt í bókinni The Plumed Serpent eftir D.H. Lawrence. Fyrirlesturinn var mjög merkilegur. Stelpan sem hélt hann hafði m.a. bakað litlar piparkökur og skreytt þær með súkkulaðibrjóstum og súkkulaðityppum og kennarinn lýsti því yfir í lokin að hún hefði hefnt sín á karlrembunni D.H. Lawrence á meðan á honum stóð: "I bit it right off!".
Í kjölfarið fór ég að spá í merkingu fatnaðar í bókum. Fyrirlesarinn vitnaði m.a. í bókina Penguin Island sem er um afleiðingar þess að nærsýnn prestur skírir mörgæsir og verður þannig til þess að þær fá sálir. Bókin er þess virði að lesa en mig langar mest til að fá ykkar álit á 1. kafla í Bók II, þar sem mörgæsarkona er klædd í mjög kvenlegan fatnað með valdi, verður af því dræsuleg og er að lokum nauðgað af munki.

Hvað varðar ádeilu á nýlendustefnu og rasisma minnti bókin mig á Salamöndrustríðið sem ég las oft sem krakki. Hún heitir víst War with the Newts á ensku. Vonandi næ ég einhvern tímann að lesa hana aftur.

Hin fyrsta færsla

Er það bara ég eða voru sögurnar um Barbapabba ein sú mesta snilld sem siglt hefur á fjörur þvermenningarlegrar bókaflóru síðust áratuga? Það er vandfundinn jafn svakalegur kommúnískur áróður og hjá þessari múlti-eþnísku sjálfaðlaganlegu fjölskyldu sem ræktar börnin sín í garðinum.

Ok. Kannski bara ég.