11.02.2007

Hárnákvæm listvísindi

Til allra þeirra sem vinna nú hörðum höndum að gáfulegum bókagreiningum til birtingar hér á þessum lifandi vettvangi nútíma bókvísinda er hér orðsending frá Pierre Bourdieu, nýja vini mínum:

... a rigorous science of art must, pace both the unbelievers and iconoclasts and also the believers, assert the possibility and necessity of understanding the work in its reality as a fetish; it has to take into account everything which helps to constitute the work as such, not least the discourses of direct or disguised celebration which are among the social conditions of production of the work of art quo object of belief.
(Pierre Bourdieu: "The Field of Cultural Production, Or: The Economic World Reversed", bls. 317.)

Því við stefnum jú ekki að minna en fullkomnun.

6.04.2007

Súpur og fleira góðmeti

Frásagnir af matarþráhyggju ylja mér um hjartarætur. Kannski af því að í þau fáu skipti sem fólk spyr mig, virkilega áhugasamt, um hvað ég sé eiginlega að hugsa núna er svarið yfirleitt ... matur. Og það eru engar gáfulegar eða heimspekilegar hugleiðingar um mat eða upprifjanir á stórkostlegum uppskriftum. Nei, ég er yfirleitt að hugsa um það hvað ég eigi að borða næst. Það fer gríðarleg orka og tími hjá mér í að skipuleggja matarneysluna í lífi mínu.

Og hvað hefur þetta með bókmenntir að gera? Spyr eflaust æsta bókaáhugafólkið sem sækir þessa síðu. Vinsamlegast hafið þolinmæði með mér, svara ég í anda Richards Brautigans, höfundar Ógæfusömu konunnar sem ég er við það að fara að vitna í. Nú kemur skýringin, held ég áfram, enn í anda Brautigans. Sem betur fer virðist Brautigan ekki endilega stunda það að halda slík loforð þannig að ég ætla ekki heldur að stressa mig of mikið á slíkum smáatriðum.

Sögumanninum í Ógæfusömu konunni “finnst það hljóma mjög spennandi að hitta verðandi ástkonu í fyrsta sinn í stórmarkaði” (43) og ímyndar sér að hann hitti konu þar sem hann er “staddur í súpudeildinni að fara yfir úrvalið” (45): “Kannski hefði ég ákveðið að dós af tómatsúpu væri góð á rigningardegi, þegar mín stutta hugleiðsla væri skyndilega rofin af rödd ljóshærðrar konu. ... Ég myndi kippast við og líta af hillunni þar sem tómatsúpunni var stillt upp sem hugsanlegum hádegisverði á rigningardegi.” (45) Þessi kona “lagði ekki í vana sinn að tala við ókunnuga karlmenn í stórmörkuðum, en það var eitthvað við það hvernig ég starði á súpudósirnar sem vakti athygli hennar, og allt í einu flögraði að henni að hún vildi kynnast nánar manni sem tæki súpur svona alvarlega”. (46) “Ég sagði henni að ég hefði verið að hugsa að kannski ætti ég að fá mér tómatsúpu til að hafa næst þegar rigndi “Ég bjóst við að það væri eitthvað á þessa leið,” sagði hún.” (47)

Síðan fylgir eftirfarandi samtal:

“Ég er með eina spurningu varðandi tómatsúpuna,” sagði X. “Og misskildu mig ekki, en það rignir ekki núna og það hefur ekki rignt í marga daga og veðurstofan spáir sama veðri áfram.”
“Einhvern daginn fer að rigna,” sagði ég.
“Líklega skiptir það ekki öllu máli því þú tókst ekki tómatsúpuna hvort sem er,” sagði hún.
“Stundum hugsa ég um hlutina áður en ég fæ mér þá,” sagði ég. “Og þar eru súpur meðtaldar.”
“Ég er fegin að ég skyldi heilsa þér,” sagði hún. “Ég hitti ekki oft fólk sem líkist þér.”
(47)

Kannski finnst ekki öllum að þessi sena sé hápunkturinn á þessari bók Brautigans en hún kætti mig óumræðilega. Í búðum má mig nefnilega oftast finna starandi í hugleiðslu á (yfirleitt ópraktíska) matvöru (eins og súkkulaði), brjótandi heilann um það hvort, hvernig og hvenær væri við hæfi að neyta hennar.

Síðar í bókinni er það salat sem verður tilefni mikilfenglegra vangaveltna:

“Vinur minn gerði það af ljúfmennsku sinni að stansa hjá nýlenduvörubúð í Livingstone svo ég gæti orðið mér úti um vistir til vikudvalar fyrir mig einan. Ég staldraði við nokkra stund í grænmetisdeildinni og fékk mér ýmislegt hráefni í salat, sem ég hef ekki borðað í verulegu magni upp á síðkastið.
Síðan keypti ég tvær flöskur af tilbúinni salatsósu.
Þegar afgreiðslumaðurinn var að leggja saman matvörurnar við kassann sagði ég skyndilega án þess að gera mér raunverulega ljóst að ég var að segja það upphátt: “Ég hugsa að ég eigi eftir að borða mikið salat í þessari viku.”
“Fyrirgefðu?” sagði afgreiðslumaðurinn og hélt að ég væri að ávarpa hann og skildi auðvitað ekki hvað ég var að fara. Hvernig átti maður að skilja: “Ég hugsa að ég eigi eftir að borða mikið salat í þessari viku” svona alveg upp úr þurru?
“Ekkert,” sagði ég. “Ég var bara að hugsa upphátt.”
Afgreiðslumaðurinn sagði ekkert fleira.”
(138)


Í Heljarslóðarhattinum eftir sama höfund eru fleiri álíka spennandi matarmóment og dreg ég af því þá ályktun að Brautigan sé álíka heltekinn af matarþráhyggju og undirrituð. Þannig verður ameríski gamansagnahöfundurinn sem fjallað er umsársvangur eftir “fleiri klukkutíma af þjáningu” vegna brotthvarfs japanskrar konu úr lífi hans:

“Fljótlega stóð hann sig að því að vera að blóta hamborgurunum tveimur sem hann át í gær.
Ég var helvítis asni að éta þessa hamborgara, hugsaði hann. Hver fjandinn greip mig? Hvað var ég að hugsa? Nú langar mig ekki í hamborgara. Ef ég hefði ekki étið þá í gær mundi mig langa í einn núna. Andskotinn.” (48)

Já hver kannast ekki við slíka eftirsjá? Hins vegar er hræðslan við túnfiskinn mér meira framandi:

“Þegar honum datt ekkert fleira í hug um hamborgara, fór hugurinn að gæla við möguleikann á túnfisk samloku, en sú hugmynd var ekki góð. Hann var alltaf að reyna að forðast hugsanir um túnfisksamlokur. ... Hann hafði verið vanur að borða að meðaltali fimm túnfisksamlokur á viku, en núna hafði hann enga fengið árum saman. Honum fannst lífið stundum tómlegt þegar túnfisksamlokuna vantaði. ... Hvers vegna átti ameríska gamansagnaskáldið í svona miklu basli með túnfiskinn? Svarið er mjög einfalt: Ótti. Hann var hræddur við hann. Hann var þrjátíu og átta ára og hræddur við túnfisk. Svona var það einfalt. Ástæða óttans var kvikasilfur.” (50)

Ameríski gamansagnahöfundurinn gefst þó ekki upp og heldur áfram að nýta gáfur sínar til frekari leitar að einhverju ætu:

“Hamborgarar komu ekki til greina og ekki heldur túnfisksamloka. Þúsundir annarra ætra hluta voru þá eftir og hann hgusaði um nokkra þeirra. Hann langaði ekki í súpu. Hann átti dós af sveppasúpu í eldhúsinu, en hann ætlaði ekki að borða hana. Kom ekki til mála. Hann hugsaði um avókadó. Það yrði ágætt. Ég fæ mér avókadó.
Í huganum smakkaði hann á avókadóbita með sítrónusafa og hann bragðaðist vel. Já, avókadó var lausnin. Þá mundi hann eftir því að hann átti ekki avókadó og að allar verslanir í nágrenninu voru lokaðar þar sem orðið var áliðið kvölds.
...
Kannski eggjahræru, hugsaði hann, þótt hann vissi að egg voru ekki til í húsinu og að hann ætlaði sér ekki að fara út að borða.
Já, egg yrðu ágæt. Létt og loftkennd. Þarna kom það. Egg.”
(56-57)

Smellið til að fá leiðbeiningar um það hvernig nota skal eggjabikar Kaflinn um eggin, sem á eftir fylgir, sem er eitt af því fyndnasta sem ég hef lesið. Hér skal þó tekið fram að háttvirtum eiginmanni mínum stökk ekki bros þegar ég las, flissandi, bestu brotin upphátt fyrir hann. Ég dreg af því þá ályktun að ekki hafi allir sama smekk fyrir matarhúmor og ég. Hér er smábrot af kaflanum svo þið getið metið áhrif hans á hláturtaugar ykkar:

“Það var engin skynsamleg ástæða fyrir því að geyma ekki egg í húsinu. Honum leið bara alltaf hálf illa þegar egg voru til staðar. Honum var líka illa við að kaupa þau. Það var eitthvað við eggjabakkann sem sló hann út af laginu og houm líkaði ekki sú staðreynd að þau væru tólf saman.” (66)

Hér ber kannski að taka fram að allar þessar matarhugleiðingar eru aðferð sögupersónunnar til að bægja frá öðrum og erfiðari hugsunum; hugsunum um japönsku konuna sem vill ekkert meira með hann hafa. Hugleiðingar sögumannsins í Ógæfusömu konunni eru notaðar í svipuðum tilgangi, til að fresta umfjöllun um málefni sem rista dýpra. Þetta á hins vegar ekki við um mínar eigin matarhugleiðingar; þær eru ástundaðar af sannri einlægni og tilgangurinn er sá sami og listarinnar: þetta eru matarhugsanir matarhugsananna vegna.

Já, ég hef komist að nokkrum niðurstöðum í þessari umfjöllun en almennri lokaniðurstöðu ætla ég að slá á frest þar til matarheimspeki fleiri höfunda hefur verið könnuð nánar. Ég man t.d. eftir skrítnum kafla í Í húsi Júlíu eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur, þar sem sögupersónan gleymir sér algjörlega í vangaveltum um sósur. Þar sem systir mín er nú með þá bók undir höndum get ég ekki vitnað í hana beint. En ég skora á hana að nota nú listrænt innsæi sitt og koma nú fram með nákvæma greiningu á Heljarslóðarhattinum.