I.
Sýningin öll myndar óaðfinnanlega heild
sagði gagnrýnandi númer eitt
(á sýningunni hafði honum verið heitt
í hamsi en hans deild
á blaðinu leyfði það eitt
að meta óhlutdrægt og gegnumsneitt).
II.
Eftir að opnunarhófinu lauk
og vínglasið var tæmt
skáskaut annar sér út í regnið
óræður og mikilúðlegur á svip.
Heimkominn setti hann sig í stellingar
og hóf skriftirnar
af alvöru þess sem treystir því
að áhrif skrifa vel þjálfaðs huga
verði bæði gagnleg og ánægjuleg
í vinalegum félagsskap líkra sála
sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta
við framþróun menningarinnar
(þótt hann sé vitaskuld tilbúinn
að takast karlmannlega á við
gagnstæð sjónarmið).
"Við óhlutdræga athugun kom í ljós
að listamanninum hefur réttilega tekist
að gera klassískum grískum áhrifum skil.
Verkin gera náttúrulegum uppruna sínum skil
á þroskaðan hátt
jafnframt því að kafa í djúp náttúrunnar
og djúp sálarinnar.
Hvað tækni varðar
er innra samræmi verkanna og sýningarinnar allrar
óaðfinnanlegt.
Þemun eru innihaldsrík, víðtæk og koma okkur öllum við.
Verkin eru jafnframt auðskiljanleg og falleg fyrir augað
enda hefur listamaðurinn greinilega gott vald
á pensiltækni og litablöndun.
Eitt versta merki um hnignun listarinnar
er þegar mismunandi formum hennar er hrúgað saman.
Skylda, gildi og virðing listamannsins felst í því
að kunna að greina sig frá öðrum listgreinum
og einangra sitt sérsvið sem mest hann má.
Það hefur tekist.
Vonandi verður þessari litlu athugun
tekið fegins hendi af listamanninum
sem getur þá ótrauður haldið áfram
á sömu braut."
Þar sem setningarnar renna úr prentsmiðjunni
mynda þær pappírsminnisvarða
sem bætir í Akrópólísar-undirstöður
stanslausrar framþróunar.
III
Hvílíkur þroski, hvílíkir yfirburðir
hrópaði sá þriðji.
Hér hefur nútíma málaralist náð hátindi sínum
og nú liggur leiðin aðeins niður á við aftur.
Listamanninum hefur tekist
að endurskapa málverkið
án þess að gleyma menningararfinum.
Það eina sem eyðilagði upplifunina
var erillinn á sýningaropnuninni
það er erfitt að einbeita sér
þegar maður er stanslaust truflaður
af smekklausum kerlingum
vappandi til og frá
blaðrandi merkingarlaust um "list".
Hafa ritstýrur kvennablaðanna
ekki einhverju meira aðkallandi að sinna
heima hjá sér?
IV
Á ritstjórn kvennablaðsins
hamraði menningarblaðamaðurinn önuglega
á bleika fartölvu
og beið þess að höfuðverkjataflan
færi að virka.
"þessi sýning, hún var smart, hún var svöl
og freyðivínið var af bestu sort."
V
Öll neikvæð gagnrýni
Kom aðeins frá einu ragntrýni
Sem var misheppnaður listamaður
Ógurlega lítið vistaglaður
Fullur af biturð og hlutdrægur
Allsendis ljótur þó skutfrægur
Og einn dag hann dó
Listaheimurinn hló
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ég fyllist dýpstu samúðar með listagagnrýnendum öllum.
Ég fyllist ljóðalotningu, og vill að þú skrifir loka ritgerðina í ljoðaformi eins og guð vill að þú gerir.
Skrifa ummæli