4.11.2006

Af með höfuðleðrið!

Ég minntist á það hér fyrir neðan að ég hefði lesið Salamöndrustríðið nokkrum sinnum þegar ég var barn. Bókin var sem sagt til heima hjá mér og mér fannst hún gífurlega merkileg þótt ég sé nokkuð viss um það núna að margt í henni hafi farið fyrir ofan garð og neðan.
Önnur bók sem var til á heimilinu, í minni eigin bókahillu meira að segja, var sagan Síðasti móhíkaninn. Sú bók hefur líklega komið frá pabba og verið í hans barnæsku ekta "strákabók". Ég man eftir að hafa fengið martraðir um fláningu höfuðskinna eftir lesturinn og fóta-fetish sögumannsins olli mér miklum heilabrotum (heilu blaðsíðurnar fara í að lýsa því hversu nettir og smáir fætur ensku aðalskvennanna eru - kvennanna sem sífellt þarf að bjarga). Þessi bók hafði gríðarleg áhrif á ímynd indíána í mínum huga; engin Disney rómantík þar á ferð en hasar og hetjuskapur í algleymingi.
Ég þurfti að lesa þessa bók fyrir kúrs í post-colonial bókmenntum um daginn og fannst það nokkuð skemmtileg upprifjun. Við ræddum um það hvernig bókin hefur dottið inn og út úr kanónu "alvöru bókmennta" og sveiflast frá því að vera talin fullorðinsbók, yfir í að vera barnabók og svo yfir til fullorðinna aftur.
Í kjölfarið fór ég að hugsa um það að þær bækur sem ég las sem barn höfðu oft mun meiri áhrif á mig en þær sem ég las seinna á ævinni. Oftar en ekki voru þetta "fullorðinsbækur" sem ég gat lesið aftur og aftur en stundum voru það bækur eins og Beverly verður flugfreyja (eða hvað þær hétu nú) eða Nancy og grænu skórnir sem ég leitaði í aftur og aftur.
Ég hugsa að barna-bókmenntakanónan sé jafnvel áhrifaríkari en kanóna "alvöru bókmennta" auk þess sem hún endurspeglar gildin sem samfélagið vill halda að börnum. Ætli fólki í dag fyndist Síðasti Móhíkaninn voða uppbyggileg bók fyrir barn?

3 ummæli:

Ásta sagði...

Það er engin spurning að þær bækur sem maður les sem barn hafa mun djúpstæðari áhrif heldur en þær sem maður les á fullorðins árum. Ég held ég hafi ekki lesið þessar bækur sem þú minntis á en ég man eftir bók sem hét Ólátabelgur sem lagðist mjög óþægilega í mig því hún fjallaði um augljóslega misþroska dreng sem erfitt var að tjónka við og var sífellt að koma sér í vandræði. Ekki skondin vandræði - og fyrir misskilning - eins og Emil í Kattholti heldur alvöru óþægð og stjórnleysi. M.a. skaut hann frænda sinn - óvart að vísu - en það var mikið drama og mjög raunverulegt. Galdramaðurinn hafði líka mikil áhrif því umfjöllunarefni var myrkt, þunglyndislegt á köflum og jafnvel ógnvekjandi fyrir 10 ára stelpu. Þessi bók heitir á ensku The Wizard of Earthsea, eftir Ursula K. Le Guinn og er fyrsta bókin í stórum fantasíubálki (sem var að sjálfsögðu alrei þýddur á íslensku.) Þar eru örugglega meira en 20 ár síðan ég lasa hana síðast og ég veit ekki alveg hvort hún Ursual var að skrifa barnabók eða almenna fantasíu en hún er ekki þekkt fyrir að tala niður til neins í skrifum sínum þannig að væntanlega var aðeins meira púður í þessari bók heldur en hinni týpísku Ævintýrabók.
Það sem ég vildi sagt hafa: þær bækur sem lifa í minningunni eru ekki þessar öruggu og áferðafögru bækur sem manni var ætlar að lesa - heldur þær sem rótuðu í manni og opnuðu hugann fyrir nýrri reynslu. Þeim mun betra ef hún var ekki þægileg.

ThordisA sagði...

Ég las "Visnaðu" eftir Stephen King einhverntíma í pössun hjá unglingsfrænku, þar heyrði (las) ég fyrst minnst á avókadó. Enn þann dag í dag þegar ég versla avókadó rifjast upp fyrir mér heilu kaflarnir úr þeirri góðu bók.

Auður sagði...

Og talandi um Beverly flugfreyju; ég sá Gwyneth Paltrow í flugfreyjumynd um daginn og svei mér þá ef þetta var ekki bara endurgerð á bókinni "Beverly flugfreyja fer til Parísar".