12.30.2008

Fannst rykfallið uppi á drafthillu blogger. Skrifað fyrir tveimur og hálfu ári sem svar við þessari snilli. Og það verður eina afsökunin sem gefin er upp.

Ó hve tímarnir hafa breyst.



Það var skorað á mig að halda kvæðabálknum áfram. Ég er reyndar ekki alveg viss um að þetta geti kallast ljóð en kemst kannski nálægt því:

"Friðvænn og frilla hans" stíga á stokk


Gagnrýnandi nr. 1 ...
...kom á frumsýningu og brosti allan hringinn.
Brosið hvarf ekki í gegnum sýninguna
og hlátrasköllin voru með þeim hæstu.
Hamingjuóskirnar voru eftir því
Allir stóðu sig gífurlega vel, leikstjórnin
óaðfinnanleg og handritið stráð gullmolum.
Kermill var einstaklega hæfileikaríkur
í hlutverki dúkarans.
Í partýinu var hver einasti leikari kysstur í bak og fyrir.
Gagnrýnandi staulaðist heim í dagrenningu
með aðalleikaranum.
Umsögnin bar þess keim:
"Sýning var stórkoslega skemmtileg og leikarar fóru á kostum.
Áhorfendur skemmtu sér vel og leikgleðin var í fyrirrúmi.
Leikfélagið kann svo sannarlega að skemmta áhorfendum.
Ó, þessi tæri einfaldleiki."

Gagnrýnandi nr. 2 ...
...kom á fimmtu sýningu
og lét lítið fyrir sér fara á sjötta bekk.
Brosti út í annað og lét ekkert uppi.
Gagnrýnin birtist þrem dögum síðar
var löng og ítarleg
rakti sögu leikfélagsins í smáatriðum
ásamt því að fjalla um mikilvægi áhugaleikhúss í menningarflórunni.
Um leikritið sjálft sagði aðeins:
"Sýningin var frambærileg og ágætlega unnið úr efniviðnum.
Skemmtileg nýting á leiktjöldum.
Nokkur ljóður var á skýrmælgi leikara."

Gagnrýnandi nr. 3 ...
...ætlaði ekki að mæta á sýningu
en var hótað öllu illu af ritstjóranum.
Leikurum leist ekki á þrumuskýið
sem hékk yfir haus hans út leikritið.
Það var mál manna að það kvöld
hafi sýningin verið einstaklega kraftmikil.
Maðleiður matsveinn náði nýjum hæðum í gormasenunni.
Stírlíður gangastúlka fór í fyrsta sinn rétt með textann.
Gagnrýnin birtist næsta dag
og kom lítið á óvart:
"Viðvangislegt rusl. Mér leiddist og sætin voru hörð."

Gagnrýnandi nr. 4 ...
...mætti of seint og settist á fremsta bekk.
Leikarar reyndu að leiða hann hjá sér
en fylltust örvæntingu
þegar honum stökk ekki bros í bestu atriðunum
Í dramatísku uppgjöri
þegar Friðvænn stakk Valdeiðu ástkonu sína
á hol með blekpenna
fór gagnrýnandinn á klósettið.
Leikarar svipuðust um eftir honum í uppklappi
en hann var á bak og burt.
Þegar gagnrýnin birtist
var farið lofsamlegum orðum um sýninguna
"þótt vissulega hafi verið hnökrar á henni.
Enda aðeins um áhugaleikhús að ræða.
Væri hin best skemmtun á árshátíð."
Verst að sýningum lauk 2 mánuðum áður.
Nafn leikstjóra var vitlaust stafsett.


Gagnrýnandi nr. 5 ...
... mætti ekki.
Enda 4 umsagnir meira en nóg fyrir eitt áhugaleikhús.

12.19.2008

Hó hó hó Helgi Há

Í skammdegisþunglyndi vetrarsólstaða heyrast gjarnan háværar raddir sem deila um rétta útgáfu af vinsæla jólalaginu "Jólasveinar ganga um gólf". Svona þekkir hvert skólabarn vísuna:

Jólasveinar ganga um gólf
með gylltan staf í hendi
móðir þeirra sópar gólf
og flengir þá með vendi

Upp' á stól
stendur mín kanna
níu nóttum fyrir jól
fer ég til manna


Engin listasmíð en sannarlega heimilisleg. Bragfræðipúritana hins vegar verkjar í eyrun af ósamræmi stuðlanna og hjartað af ólógík þeirri að hinir fjallbúandi íslensku jólasveinar skuli hafa komist yfir gyllta stafi uppi á öræfum. Einnig þykir furðum sæta hversu ólýrískur ljóðmælandi er með því að einfaldlega lýsa á hlutlausan hátt sínu nánasta umhverfi: "Upp' á stól stendur mín kanna". Ófáar kenningar spruttu upp hvað væri í raun í þessari merku könnu en lítið verið um niðurstöður. Árið 1981 ofbauð Helga Hálfdánarsyni þvílíkt að hann opinberaði fyrir þjóð þá útgáfu sem hann taldi að hlyti vera hin rétta og upphaflega:

Jólasveinar ganga um gátt
með gildan staf í hendi.
Móðir þeirra hrín við hátt
og hýðir þá með vendi.

Upp á hól
stend ég og kanna
níu nóttum fyrir jól
þá kem ég til manna.


Vandamálið er að þarna er Helgi að gefa sér það að höfundur ljóðsins hafi eitthvað kunnað fyrir sér í bragfræði og jafnvel verið heil(l) á geði. Fyrir því liggja engar sannanir. Fyrir Helga var það óhugsandi að íslenskt Skáld - og það Fornt Skáld - sendi frá sér nokkuð annað en rétt kveðið og vel rímað alþýðuljóð um heimilisofbeldi á jólahátíð.

Þetta er ekki eina dæmið um forræðishyggju Helga Hálfdánarsonar. Árið 1983 hafði hann sig allan í frammi við að fá homma og lesbíur til að hætta að kalla sig homma og lesbíur. Þótti honum orðin ekki hafa nógu jákvæða skírskotun og vera þar að auki ekki nógu málfræðilega þjál. Stakk hann upp á hóma og lesbu í staðinn. Einnig var honum orðið samkynhneigð þyrnir í augum og vildi frekar notast við orðið kynhvarfi. Beið hann síðan spenntur eftir þakkartárum íslenskra hóma og lesba. Það varð varð lítið um þau en í staðinn bentu hommar og lesbíur kurteisislega á að þau skyldu kalla sig það sem þeim sýndist takk fyrir og að kynhvarfi væri bara orðið kynvillingur í sparifötum. Hafði Helgi því ekki erindi sem erfiði.

Hvað jólalagið varðar kunnu margir Helga mikla þökk fyrir framtakið og reyna enn í dag að básúna út fagnaðarerndi hans. Samt tel ég nú að fyrri útgáfan sé sungin frekar linnulaust á hverju jólaballi.

All is well - gleðileg jól!

"With the world's cultures being ravaged and destroyed, from end to end, by viciously inappropriate technologies, with wars raging everywhere, with whole populations being wiped out, and deliberately, for the benefit of ruling castes, with the wealth of every nation being used almost entirely for war, for preparations for war, propaganda for war, research for war; with the general levels of decency and honesty visibly vanishing, with corruption everywhere - with all this, living in a nightmare of dissolution, was it really possible, it may be asked, for these poor creatures to believe that "on the whole" all was well?
The reply is - yes.
[...]
It is not too much to say that in a country devastated by war, lying in ruins, poisoned, in a landscape blackened and charred under skies low with smoke, a Shikastan was capable of making a shelter out of broken bricks and fragments of metal, cooking himself a rat and drinking water from a puddle that of course tasted of oil and thinking "Well, this isn't too bad after all ...""
(Doris Lessing: Shikasta, 1979)