Í skammdegisþunglyndi vetrarsólstaða heyrast gjarnan háværar raddir sem deila um rétta útgáfu af vinsæla jólalaginu "Jólasveinar ganga um gólf". Svona þekkir hvert skólabarn vísuna:
Jólasveinar ganga um gólf
með gylltan staf í hendi
móðir þeirra sópar gólf
og flengir þá með vendi
Upp' á stól
stendur mín kanna
níu nóttum fyrir jól
fer ég til manna
Engin listasmíð en sannarlega heimilisleg. Bragfræðipúritana hins vegar verkjar í eyrun af ósamræmi stuðlanna og hjartað af ólógík þeirri að hinir fjallbúandi íslensku jólasveinar skuli hafa komist yfir gyllta stafi uppi á öræfum. Einnig þykir furðum sæta hversu ólýrískur ljóðmælandi er með því að einfaldlega lýsa á hlutlausan hátt sínu nánasta umhverfi: "Upp' á stól stendur mín kanna". Ófáar kenningar spruttu upp hvað væri í raun í þessari merku könnu en lítið verið um niðurstöður. Árið 1981 ofbauð Helga Hálfdánarsyni þvílíkt að hann opinberaði fyrir þjóð þá útgáfu sem hann taldi að hlyti vera hin rétta og upphaflega:
Jólasveinar ganga um gátt
með gildan staf í hendi.
Móðir þeirra hrín við hátt
og hýðir þá með vendi.
Upp á hól
stend ég og kanna
níu nóttum fyrir jól
þá kem ég til manna.
Vandamálið er að þarna er Helgi að gefa sér það að höfundur ljóðsins hafi eitthvað kunnað fyrir sér í bragfræði og jafnvel verið heil(l) á geði. Fyrir því liggja engar sannanir. Fyrir Helga var það óhugsandi að íslenskt Skáld - og það Fornt Skáld - sendi frá sér nokkuð annað en rétt kveðið og vel rímað alþýðuljóð um heimilisofbeldi á jólahátíð.
Þetta er ekki eina dæmið um forræðishyggju Helga Hálfdánarsonar. Árið 1983 hafði hann sig allan í frammi við að fá homma og lesbíur til að hætta að kalla sig homma og lesbíur. Þótti honum orðin ekki hafa nógu jákvæða skírskotun og vera þar að auki ekki nógu málfræðilega þjál. Stakk hann upp á hóma og lesbu í staðinn. Einnig var honum orðið samkynhneigð þyrnir í augum og vildi frekar notast við orðið kynhvarfi. Beið hann síðan spenntur eftir þakkartárum íslenskra hóma og lesba. Það varð varð lítið um þau en í staðinn bentu hommar og lesbíur kurteisislega á að þau skyldu kalla sig það sem þeim sýndist takk fyrir og að kynhvarfi væri bara orðið kynvillingur í sparifötum. Hafði Helgi því ekki erindi sem erfiði.
Hvað jólalagið varðar kunnu margir Helga mikla þökk fyrir framtakið og reyna enn í dag að básúna út fagnaðarerndi hans. Samt tel ég nú að fyrri útgáfan sé sungin frekar linnulaust á hverju jólaballi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Svo er það hann Adam sem ruggaði sér í lendunum og sneri sér í hring. Helgi H. hefur ekki séð neitt athugavert við það?
Eflaust hefur hann gert það þótt ég hafi ekki rekist á neinar heimildir ennþá
Skrifa ummæli