10.27.2006

Loftslags-reyfarar (Eco-thrillers)

Mary Poppins vissi að allra veðra var von.Í tilefni veðurfarsins undanfarna tvo daga ætla ég að mæla með lestri á loftslags- eða umhverfisáhrifareyfaranum Forty Signs of Rain eftir Kim Stanley Robinson. Ég er ekki bara að tala sem einlægur og heitur Robinson-aðdáandi þegar ég segi að bókin sé bæði skemmtileg og áleitin á þessum tímum heimsendapælinga og ótta við náttúruöflin.
Kjörið að setjast niður með þessa bók og hlusta á regnið dynja á rúðunni á meðan maður les um það hvernig endalokin hefjast með einmitt slíkri endalausri rigningu.
Svo er víst komið framhald (já þetta á víst að vera trílogía, Robinson er hrifinn af því og hefur þegar skrifað Mars-trílógíuna og Kaliforníu-trílógíuna). Sú bók heitir Fifty Degrees Below og við getum allar ímyndað okkur út frá þeim titli hvert framhaldið verður eftir rigninguna miklu.
Eins gott að ég keypti mér trefil í dag.
(Hvað ætli næsta bók heiti? Sixty Survivors Left?)

Annað sem er "skemmtilegt" við Forty Signs of Rain er hvernig hún blandar saman frásögn af fólki sem er að berjast við að halda skikki á sínu daglega lífi og frásögn af baráttu við að koma í veg fyrir heimsenda. Aðalsöguhetjan er í barnseignarleyfi en reynir samt að gefa sér tíma milli rólóvalla og pelagjafa að standa í þreytandi lobbýisma í Washington til að hafa smááhrif á pólitíska stefnu öldungardeildarþingmanns - með sorglega litlum árangri (sem gerir bókina einmitt enn raunsærri að mínu áliti).
Í þriðja lagi eru hinar áhugaverðu vangaveltur um hið sérstæða aðdráttarafl heimsenda í hugum fólks. Hvers vegna skrifum við bækur um heimsenda, gerum um hann kvikmyndir og lesum/horfum í spenningi? Robinson kastar því fram að það sé eitthvað við neyðarástand og náttúruhamfarir sem geri okkur bæði ómerkilegri og merkilegri í senn. Hið daglega bras okkar (sem við erum kannski hundleið á) hættir að skipta máli og við tengjum okkur stærra samhengi, tökum þátt í stærri og merkilegri baráttu.

Einhvers staðar var því fleygt að kvenskáld virtust spenntari fyrir heimsendapælingum (hér má einhver gáfaður benda á hvar og hvert því var fleygt) og væri það tengt stöðu þeirra í samfélaginu. Þeir sem hafa minnstu að tapa eru æstastir í sem drastískar breytingar. Að mínu mati eru margar skáldkonur a.m.k. afar heillaðar af hugmynd um aðra heima og þá möguleika sem þeim fylgja og býst ég við að þar geti ástæðan verið sú sama.

Ég mæli með að við lifgum upp á langan og dimman vetur framundan með heimsenda- og hörmungaskrifum. Til að koma sér í rétta skapið má m.a. lesa trílogíu James Morrows um dauða Guðs og þá drepsótt sem honum fylgir. Ef ykkur finnst það of mikið lesefni til upphitunar er ég nokkuð viss um að aðrir klúbbfélagar luma á ýmsu drungalegu dómsdagslesefni.